Á fundi umhverfis- og landbúnaðarnefndar þann 5. nóvember 2024 sl. voru veittar viðurkenningar fyrir umhverfismál í Borgarbyggð. Nýjum flokki var bætt við í ár sem ber titilinn “Sérstök viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi”.
Líkt og fyrri ár var kallað eftir tilnefningum íbúa og það var ánægjulegt að sjá hversu margir tóku sér tíma til að senda inn tilnefningar.
Eftirfarandi aðilar fengu viðurkenningu fyrir árið 2024:
Falleg lóð við íbúðarhús
Túngata 16 á Hvanneyri var valin snyrtilegasta einbýlishúsalóðin í sveitarfélaginu. Þar búa hjónin Guðmundur Hallgrímsson og Oddný Sólveig Jónsdóttir.
Umsögn: Lóðin er öll vel gróin, flokkun á úrgangi til fyrirmyndar og allt til sóma hvert sem litið er.
Snyrtileg lóð við atvinnuhúsnæði
Ný lóð Orku náttúrunnar við Brúartorg í Borgarnesi var valin snyrtilegasta lóð atvinnufyrirtækis. Þar var á þessu ári komið fyrir stærsta hleðslugarði ON á landinu.
Umsögn: Strax var gengið frá öllu á lóðinni, hún fallega hönnuð, þar er leiksvæði fyrir börnin og allt til fyrirmyndar.
Snyrtilegt bændabýli
Að þessu sinni voru Sámsstaðir í Hvítársíðu valdir snyrtilegasta bændabýlið. Þar búa hjónin Þuríður Guðmundsdóttir og Ólafur Guðmundsson.
Umsögn: Á Sámsstöðum er allt til fyrirmyndar og vel tekið til í kringum öll hús. Þessi sömu verðlaun hafa áður farið að Sámsstöðum. Flest ef ekki öll ár, sem nefndin hefur úthlutað umhverfisverðlaunum, hafi tilnefningar borist um Sámsstaði.
Samfélagsviðurkenning umhverfis- og landbúnaðarnefndar vegna umhverfismála.
Samfélagsverðlaunin að þessu sinni hlaut Guðríður Ebba Pálsdóttir í Borgarnesi. Hún hefur um langt árabil lagt hug og hönd í fegrun umhverfisins, einkum á golfvellinum á Hamri. Það var samdóma álit nefndarinnar að Guðríður Ebba væri vel að slíkri viðurkenningu komin, væri einstaklingur sem þykir hafa gert afar vel í samfélaginu.
Umsögn: Sjálfboðaliðastarf hennar í langan tíma á golfvellinum á Hamri er einstakt og svo er hún með einstaklega græna fingur. Ebba hefur nýtt krafta sína á jákvæðan hátt í að fegra og gera bæinn sinn fallegri. Þá lætur hún umhverfið sig varða og er óhrædd við að leiðbeina öðrum ef svo ber undir. Fyrst og fremst eru þó þær umhverfisbætur sem Ebba hefur verið í forsvari fyrir við golfvöllinn á Hamri eitthvað sem horft er til, og ekki einvörðungu meðal íbúa, heldur fjölda gesta sem golfvöllinn sækja heim.
Sérstök viðurkenning fyrir snyrtilegt umhverfi.
Úthlutað var í nýjum flokki að þessu sinni fyrir fallegt umhverfi eða annað sem ekki fellur undir hefðbundna verðlaunaflokka. Umhverfis og landbúnaðarnefnd ákvað að verðlauna hjónin á Arnarbjargarlæk í Þverárhlíð, þau Davíð Aðalsteinsson og Guðrúnu Jónsdóttur. Þar hefur búskap verið hætt en búseta er áfram á jörðinni.
Umsögn: Á Arnbjargarlæk eru einkar reisuleg hús og vel við haldið. Eitt glæsilegasta íbúðarhús landsins er þar að finna og er því afar vel við haldið sem og öðrum húsakosti hvort sem það eru gömul fjárhús eða aðrar byggingar. Það er metnaður í allri umgengni, nýr ofaníburður í hlaðinu, allt vel málað og greinilega hugsað vel til þess að þarna er fallegt heim að líta. Sannkölluð héraðsprýði.
Tengdar fréttir
Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar
Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.