30. september, 2024
Fréttir

Niðurstaða frumkvæðisathugunar Gæða- og eftirlitsstofnunar (GEV) á barnaverndarþjónusta Borgarbyggðar liggur nú fyrir. Athugunin hófst í mars 2023 og tók til tímabilsins frá janúar 2022 til apríl 2023. Tilefnið var fjöldi og alvarleiki erinda og kvartana sem GEV hafði borist.

Niðurstaða GEV er að töluverður og alvarlegur misbrestur hafi orðið á vinnslu mála hjá barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar á tímabilinu. Fram kemur að skort hafi á skýra verkferla og leiðbeiningar til starfsfólks, skráningu mála og varðveislu upplýsinga var ábótavant og töluvert skorti á samvinnu og samskipti við aðila máls. GEV telur að gögn sýni að brotið hafi verið gegn málsmeðferð V., VI., og VII. kafla barnaverndarlaga við vinnslu mála. Í samræmi við það setur GEV fram tilmæli um alls 13 úrbætur á barnaverndarþjónustu í Borgarbyggð.

Sveitarfélagið tekur því alvarlega að misbrestur hafi átt sér stað í þjónustu við börn og fjölskyldur á tímabilinu og er beðist afsökunar á því. Síðan tilkynning um frumkvæðisathugun barst hefur Borgarbyggð haft að leiðarljósi að athugunin og samstarfið við GEV yrði til þess að efla barnaverndarþjónustu í sveitarfélaginu. Þegar var hafist handa við úrbætur og síðasta eina og hálfa árið hafa orðið verulegar breytingar á þjónustu við börn í Borgarbyggð. Ráðist hefur verið í ýmsar aðgerðir í því skyni m.a.:

  • Á vettvangi sveitarstjórnar var ákveðið að setja aukið fjármagn í málaflokkinn með það að markmiði að bæta starfsumhverfi og gæði þjónustu
  • Mannabreytingar hafa orðið, stöðugildum í barnavernd hefur verið fjölgað og bakvakt barnaverndar sett á laggirnar
  • Með skipulagsbreytingum hefur orðið betri yfirsýn yfir málaflokkinn, kröfur og eftirlit með skráningu gagna hafa verið auknar og lögfræðiþjónusta við málaflokkinn innan sveitarfélagsins verið efld
  • Allar ákvarðanir eru, með fáum undantekningum, nú teknar á meðferðarfundum og þá í samráði við yfirmann barnaverndar
  • Þjálfun, fræðsla og aðgangur að handleiðslu starfsfólks verið aukin
  • Nú er unnið að stofnun á barnaverndarþjónustu Vesturlands ásamt nokkrum sveitarfélögum í landshlutanum þar sem Borgarbyggð verður í hlutverki leiðandi sveitarfélags
  • Verður sú breyting til þess að aðgangur að fagþekkingu eykst enn frekar og auðveldara verður að miðla reynslu og þekkingu milli starfsmanna

 

Margar þessara umbóta eru í samræmi við þau tilmæli um úrbætur sem komu síðar fram í úttekt GEV. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninn er heilt ár liðið frá því að borist hefur kvörtun vegna barnaverndarþjónustu Borgarbyggðar. Í ljósi þess hefur GEV upplýst að ekki sé talin þörf á áframhaldandi eftirliti af hálfu stofnunarinnar. Áfram verður samt unnið að úrbótum í samræmi við tilmæli GEV og verður þeim lokið innan sex mánaða.

Það er vandasamt verk að reka góða barnaverndarþjónustu. Úttektin hefur verið krefjandi og lærdómsrík fyrir alla þá aðila sem að ferlinu komu. Niðurstöður GEV eru góður leiðarvísir að frekari uppbyggingu með það að markmiði að reka fyrirmyndar barnaverndarþjónustu.

Borgarbyggð er fyrsta sveitarfélagið þar sem GEV hefur frumkvæðisathugun á barnaverndarþjónustu en stofnunin var sett á laggirnar í ársbyrjun 2022. Borgarbyggð þakkar GEV og starfsfólki stofnunarinnar fyrir traust og gott samstarf.

Hér má sjá frétt frá Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála

Hér má finna útdrátt úr eftirlitsskýrslu GEV

Tengdar fréttir

6. júní, 2023
Fréttir

241. fundur Sveitarstjórnar Borgarbyggðar

Fundarboð

6. júní, 2023
Fréttir

Umhverfisviðurkenningar – tilnefningar

Umhverfis- og landbúnaðarnefnd veitir árlega viðurkenningar fyrir snyrtilegar og fallegar lóðir og hvetur íbúa til að taka þátt í að gera ásýnd sveitarfélagsins sem besta.